fbpx

16 des 2020

SVEF hádegi: Tölvuleikir

Mynd gæti innihaldið: 3 manns, gleraugu, texti og nærmynd

SVEF hádegi verður haldið rafrænt og streimt inná Facebook þann 16. desember kl. 12.15, en að þessu sinni fáum við til okkar 3 frábæra gesti úr leikjageiranum.

Halldór Snær Kristjánsson starfar sem framkvæmdastjóri leikjafyrirtækisins Myrkur Games og er einn af stofnendum þess. Myrkur Games vinnur að þróun á metnaðarfullum sögudrifnun ævintýraleik sem verður gefinn út fyrir næstu kynslóð leikjavéla.
Við þróun leiksins blandar Myrkur nýsköpun í tækni við það allra nýjasta úr leikjavélum, hugbúnaði, ljósmyndatækni og hreyfirakningu til að skapa einstaka og ríka upplifun fyrir spilara. Á bakvið svo umfangsmikið verkefni eru margvíslegar og fjölbreyttar áskoranir bæði í tækni og sköpun. Halldór mun fjalla um ferlið á bakvið þróun leiksins, helstu hindranir sem fyrirtækið hefur þurft að yfirstíga og lærdóminn sem liggur að baki.


María Guðmundsdóttir, stofnandi og framkvæmdastjóri Parity. Erindið hennar ber nafnið: Miðill margbreytileikans – massaðu hann.
Í fyrirlestri sínum mun María tala um mikilvægi tölvuleika sem miðils og hvað tölvuleikjagerð er margþætt. Einnig mun hún gefa innsýn inn í þróun á tölvuleiknum, Island of Winds, sem Parity er að framleiða og tala um framtíðarsýn fyrirtækisins.


Valgerður Halldórsdóttir er einn af aðstandendum Teatime Games. Teatime Games þróar tækni sem gerir fólki kleift að vera í persónulegri samskiptum þegar það er að spila farsímaleiki. Nýjasti leikur þeirra Trivia Royale náði toppsætinu á bandaríska App Store-inu á aðeins tíu dögum.
Valgerður mun fjalla um áskoranir í að gera leiki persónulegri á mettuðum leikjamarkaði og hvernig þau fóru frá því að gefa út fyrsta leikinn sinn, sem vakti litla athygli, í að gefa út vinsælasta appið á bandaríska App Store-inu.

Fylgist með á Facebook!