fbpx

11 mar 2022

Íslensku vefverðlaunin 2021

Online á visir.is

SVEF félagar og vinir…lesið vel! og merkið í dagatalið! Hint, það er rúsína í endanum.

Íslensku vefverðlaunin fyrir árið 2021 verða haldin þann 11.mars kl. 19:30. Verðlaunaafhendingin fer fram í beinni streymisútsendingu á visi.is. Þetta verður í síðasta skipti (7-9-13) sem við höldum þessa frábæru verðlaunahátíð vefbransans á rafrænu formi og á næsta ári stefnum við á að hverfa aftur til fyrri frægðar og halda alvöru verðlaunaveislu, í raunheimum. Á hátíðinni verða bestu vefverkefnin fyrir árið 2021 valin með pompi og prakt og verða það þau Eva Ruza og Siggi Gunnars sem verða kynnar hátíðarinnar.

Við hvetjum félaga og fyrirtæki til þess að „peppa“ mannskapinn, safnast saman við skjáinn og njóta þessarar uppskeruhátíðar vefiðnaðarins með okkur í skemmtilegu vefstreymi. Við hefðum að sjálfsögðu viljað halda herlegheitin í eigin persónu, með ykkur. En vegna óvissunnar sem varði þangað til nýlega þá var fyrirvarinn of naumur (blabla jólakaka og allt það). Við komum tví-, þrí-  eða fjórefld til baka á næsta ári. Því lofum við.En það er rúsína í pylsuendanum!

Örvæntið ekki! Við stefnum á að bjóða öllum SVEF félögum í eftirpartí á KEX Hostel strax eftir að útsendingu lýkur. Þið sem viljið koma fyrr og horfa með okkur eruð velkomin kl. 19:30. Þar langar okkur að hittast, skála og hafa gaman…saman! Veigar á góðu verði og plötusnúðurn á staðnum. Þarf að segja meira? Nákvæmar upplýsingar um eftirpartíið verða sendar út síðar.

Samantekt: Það sem þú þarft að vita

Topp 5 tikynnt: Á visir.is kl 12:00 þann 4. mars.
Vefverðlaunin í beinni: Á Vísi kl. 19:30 þann 11. mars.
Eftirpartí á KEX: Húsið opnar 19:30 og lokar þegar lokar.
DJ og gleði: Má koma með eigin gleði, við sköffum DJ.

Tökum nú höndum saman og styðjum SVEF og bransann með því að horfa saman á íslensku vefverðlaunin og sjáumst svo hress á KEX!…og ekkert stress…bless.

Kveðja,
Stjórn SVEF

Eva og Siggi munu tilkynna á Vísi þann 4. mars næstkomandi kl. 12:00 hvaða verkefni eru tilnefnd topp 5 í eftirfarandi flokkum:

• Fyrirtækjavefur ársins (lítil fyrirtæki)
• Fyrirtækjavefur ársins (meðalstór fyrirtæki)
• Fyrirtækjavefur ársins (stór fyrirtæki)
• Markaðsvefur ársins
• Efnis- og fréttaveita ársins
• Söluvefur ársins
• Stafræn lausn ársins
• Tæknilausn ársins
• Opinber vefur ársins
• Vefkerfi ársins
• App ársins
• Samfélagsvefur ársins
• Gæluverkefni ársins