fbpx

Vel heppnaður hádegisfundur um vefverslanir

Fyrsta SVEF Hádegi vetrarins fór fram í dag 9. október en fulltrúar frá Já.is og Nova kynntu þar verkefni sem tengjast vefverslunum.

Vel var mætt á viðburðinn sem fór að þessu sinni fram í nýjum salarkynnum á Hæðinni við Síðumúla 32. Mikil ánægja var með nýja staðsetningu og myndaðist einkar skemmtileg stemming á viðburðinum.

Anna Berglind Finnsdóttir, verkefnastjóri vöruleitar Já.is, talaði um hið stórmerkilega verkefni Vöruleit já en þar er nú hægt að finna fleiri hundruð þúsund vörur frá mörg hundruð íslenskum vefverslunum. Anna sagði okkur söguna á bakvið verkefnið og helstu hindranir sem teymið þurfti að komast yfir.

Gunnar Már Þorleifsson, vefforritari, vefverslunarsérfræðingur og vefunnandi hjá Nova hélt seinna erindi viðburðarins þar sem hann sagði frá því hvernig vefverslunarumhverfi Nova er byggt upp, bæði frá sjónarhorni notandaupplifunar sem og tæknilega. Nova hefur hlotið Íslensku vefverðlaunin fyrir vefverslun sína og var afar fróðlegt að sjá hversu mikil hugsun og undirbúningur hefur farið í þá vegferð sem Nova hefur verið undanfarin ár.