Í ár ákvað stjórn SVEF að hrista aðeins upp í hlutunum og endurskoða skipulag dómnefndar og dómnefndarstörf fyrir Íslensku vefverðlaunin. Ástæðan að baki breytingunum er þríþætt: Erfiðlega gekk að fá dómara, dómarar voru fair og á litla landing okkar gat það gerst að dómarar voru einnig þátttakendur í innsendum verkefnum og gátu því ekki dæmt hluta verkefnanna.
Í gegnum árin hefur dómnefndin verið skipuð 8 dómurum og var það á ábyrgð þessara fáu dómara að dæma alla þætti verkefnanna, frá hönnunarkerfi til forritunar, aðgengis og notendaupplifunnar. Með nýju dómarakerfi er dómnefndin skipuð 61 dómara sem skipt er í 6 dómarahópa. Í hverjum hópi sitja sérfræðingar í tiltekinni grein sem dæma verkefnin út frá sinni sérþekkingu. Kríteríurnar sem um ræðir eru: Forritun, hönnun, notendaupplifun, efnissköpun, aðgengi og sköpunargleði. Með þessum breytingum vonast stjórn SVEF til þess að fá betri og marktækari niðurstöður.
Í stað þess að hverju verkefni sé gefin ein heildareinkunn eins og verið hefur, fær verkefni einkunn fyrir hverja kríteríu. Kríteríurnar hafa svo mismikið vægi eftir flokkum. Til dæmis hefur kríterían efnissköpun meira vægi í verðlaunaflokknum ‚Efnis- og fréttaveita’ heldur en í flokknum ‚Gæluverkefni’.
Þegar hver dómarahópur hefur dæmt þau verkefni sem þeim var úthlutað, koma tveir dómarahópar saman og meta efstu 7 verkefnin í hverjum flokki. Þar er dómurum gefinn vettvangur til að ræða niðurstöður og raða þeim niður. Afrakstur þessarar vinnu er listi af topp 5 verkefnum í hverjum flokki.