Úrslit í Íslensku Vefverðlaununum

05.02.2011 13:38

Meniga.is var valinn besti íslenski vefurinn á Íslensku vefverðlaunum sem Samtök vefiðnaðarins stóðu fyrir í gær. Simon Collison afhenti verðlaunin við athöfn sem haldin var í Tjarnarbíói og voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi vefi í 11 flokkum. Alls bárust yfir 100 tilnefningar til verðlaunanna að þessu sinni, en þetta er í tíunda skipti sem Íslensku Vefverðlaunin eru haldin.

Íslensku vefverðlaunin eru uppskeruhátíð vefiðnaðarins, haldin með það að markmiði að efla hann, verðlauna bestu vefina og hvetja þá sem starfa á þessum vettvangi til dáða.

Sigurvegarar í hverjum flokki ásamt greinargerð frá dómnefnd.

Besti Íslenski vefurinn - Meniga.is
Besti vefurinn að mati dómnefndar er ekki bara til fyrirmyndar þegar kemur að framsetningu og notendavænni miðlun upplýsinga, heldur líka þegar kemur að hugviti og annari fræðslu sem vefnum tengist. Fyrirtækið hefur fylgst vel með þróun vefja í sínum bransa og hefur nýtt sér góð fordæmi í uppbyggingu síðunnar. Það er mikið í húfi þar sem vefurinn er mikilvægt sölutól en fyrirtækið sem vinnur vef ársins í ár leysir erfitt verkefni afar vel.

Athyglisverðasti vefurinn - Datamarket.com
Nýr flokkur var kynntur nú í ár en félagsmönnum SVEF gafst kostur á að velja athyglisverðasta vefinn í lokaðri netkosningu meðal félagsmanna.

 

 

Besta sölu og kynningarvefurinn með færri en 50 starfsmenn - northsailing.is
Á krepputímum er mikilvægt að vera með öfluga sölustarfsemi og vinna sér inn hollustu viðskiptavina. Þessi vefsíða er gott dæmi um þar sem þetta markmið er í hávegum haft. Í ofanálag er hann aðgengilegur og skýr. Með einstaklega vel heppnað útlit og nóg af auka upplýsingum, myndskeiðum og myndum.

Besti sölu- og kynningarvefurinn með fleiri en 50 starfsmenn - nova.is
Þessi vefur sem við verðlaunum næst býður upp á greiðan vef-aðgang að allri sinni þjónustu, verslun og öðru markaðsefni. Forsíðan er aðlaðandi. Auðvelt er að finna allar upplýsingar og þær eru vel uppfærðar. Sjá má góða nýtingu á samfélagsmiðlum. Snyrtileg og skýr hönnun réði að lokum úrslitum um hver yrði fyrir valinu sem Besti sölu- og kynningarvefurinn

Besti þjónustu- og upplýsingavefurinn - Datamarket.com
Vinningshafinn í flokknum Besti þjónustu- og upplýsingavefurinn árið 2010 þykir bjóða upp á afar skýra framsetningu efnis, auk þess að vera það sem kallast "aðgerðadrifinn". Vefurinn er til þess fallinn að fá jafnt fræðimenn sem leikmenn til að fá áhuga á því efni sem hann hefur fram að bjóða. Með því sannar hann að framsetning á upplýsingum, jafnvel býsna flóknum, þarf ekki að vera þurr og leiðinleg, heldur getur hún verið áhugaverð og skemmtileg.

Besti Mobile - l.is
Besti hand-smátækja vefurinn í ár er í senn upplýsinga og þjónustuvefur. Á vefnum geta notendur á fljótlegan og þægilegan hátt nálgast allar helstu upplýsingar fyrirtækisins. Að auki geta viðskiptavinir nýtt sér hann til að framkvæma algengar aðgerðir fljótt og örugglega. Á næstu misserum munu slíkir vefir verða æ mikilvægari og þessi vefur er fyrirtaks fyrirmynd þegar litið er til íslenskra mobile-vefsíðna.

Besta markaðsherferðin - icelandwantstobeyourfriend.com
Meðal þess sem kom fram í umfjöllun dómnefndar um þennan aðila var að þetta væri ekki aðeins dæmi um bestu markaðsherferð á netinu á Íslandi, heldur bestu netmarkaðsherferð fyrir viðskiptavin af þessu tagi í heiminum. Slíkar lýsingar hafa raunar líka heyrst frá erlendu fagfólki sem rekist hefur á þessa hugmyndaríku netherferð frá Íslandi. Það er við hæfi að halda ekki aftur af lofinu þegar við verðlaunum þennan aðiila því að hugmyndafræðin, á bakvið markaðsherferðina sem um ræðir, byggist að stóru leyti á hógværð og sjarmerandi lítillæti. En sjón er sögu ríkari... Já! Það hefur lítið farið fyrir herferðinni innanlands fyrr en nú og það er tími til kominn að aðstandendur hennar fái almennilegt hrós. Dómnefndin var bókstaflega heilluð af... "Iceland wants to be your friend" Til hamingju Íslandsstofa og Takk Takk... með bestu markaðsherferðina.

Besta blogg/efnistök/myndefni - cafesigrún.com
Sá vefur sem sigrar í þessum flokki er einn lífseigasti á sínu sviði. Hann hefur nú verið virkur í ein 7 ár og hefur lifað marga aðra slíka vefi sem gefið hafa upp öndina. Vefurinn gekkst nýlega undir andlitslyftingu sem var að mati dómnefndar afar vel heppnuð. Efni vefsins miðast algjörlega við þarfir notenda - þó að síðuhaldarinn sé klárlega í vefútgerð á sínum eigin forsendum. Vefurinn er gríðarlega efnismikill og notadrjúgur og inniheldur fullt af frábærum myndum. Ný leitarvél sem sett var upp í tengslum við breytingarnar hefur hitt í mark hjá notendum vefsins. Spurt og svarað dálkurinn gefur bæði skýr svör og veitir skemmtilega innsýn í hugsanagang og karakter síðuhaldara. Vefurinn er frábært dæmi um hvernig það eru ekki aðeins fyrirtæki sem geta sett mark sitt á vefupplifun fólks, heldur einnig einstaklingar, sem með slatta af ástríðu, tíma og html-i hitta oft beint í mark.

Besti afþreyingar- eða fréttavefurinn - Bestulogin.siminn.is
Hér er að finna fullt af vönduðu og vel völdu efni sem skemmtilegt er að skoða. Efnið er síbreytilegt og útlit og viðmót fágað. Vefurinn er auk þess mjög auðveldur í notkun. Svona á afþreying að vera.

 

 

Frumlegasti Vefurinn - www.legendsofvalhalla.com
Fyrir flokkinn frumlegasta vefinn er leitað að öðruvísi nálgun. Hér er einn slíkur sem skaraði framúr með skemmtilegri og óvenjulegri uppsetningu þar sem gtt aðgengi að framsettu efni er í fyrirrúmi. Það má alveg teljast frumlegt að láta óþarfa prjál, veftrjáarflækjur og blaður ekki flækjast fyrir aðalatriði vefs.

 

Besta útlit og viðmót - gítargrip.is
Fyrstu viðbrögð þegar þessi er skoðaður er "Vá hvað þetta er flott". Kúlið er í hámarki og flestir hlutir poppaðir upp, en samt er allt á sínum stað. Síðan er auðveld í notkun, sem er þáttur sem vill oft gleymast þegar farið er í mikla útlitshönnun. Það skemmir heldur ekki fyrir að innihaldið er svo vel framsett og aðgengilegt og óneitanlega skemmtilegt að maður kemur í heimsókn aftur og aftur.

Upplýsingar um dómnefndina

Að vanda samanstóð dómnefndin af öflugum sérfræðingum innan íslenska vef iðnaðarins.

Andrés Jónsson
Andrés borgaði einu sinni nærri milljón krónur fyrir Flash-vefsíðu. Þetta var árið 1998 og Flash-síðan var fyrir útvarpsstöðina Mono. Ári síðar tók hann að sér viðskiptaþróun fyrir íslenska heimasíðufyrirtækið INNN og skrifaði viðskiptaáætlun sem var svo uppfull af lygum að Kaupþing borgaði 2 milljónir dollara fyrir hlut í því. Sjálfur græddi hann nokkrar milljónir á sölu hlutabréfa í INNN og varð þannig einn fárra vefmilljónera í Íslandssögunni. Tapaði samt öllu strax aftur með stofnun Sentientworks Inc. í Seattle, í þann mund sem netbólan sprakk. En ekki fyrr en eftir að fyrirtækið starfaði fyrir Bill Gates sjálfan að verkefni sem var reyndar aldrei kynnt. Fleiri vita að hann er fyrrv. Íslandsmeistari í borðtennis og almannatengill hjá Góðum samskiptum. Andrés elskar netið en hatar flestar heimasíður.

Halla Kolbeinsdóttir
Halla er sjóaður vef- og mobilevefhönnuður, HTML og CSSari, og verkefnastjóri. Eftir að vera vitni að netbólusprengjunni í Englandi og umturnun Bandaríkjanna eftir 9/11 mætti hún vösk til leiks rétt fyrir hrun á Íslandi. Nú treður hún puttunum í eyrun og vinnur hart að því að láta draumana rætast með stofnun fjölskyldu og fyrirtækis. Hún er með-stofnandi leikjafyrirtækisins Fort North og virkur partur hjá vefhönnunarfyrirtækinu Kosmos og Kaos.

Harpa Rós Jónsdóttir
Harpa Rós er vefstjóri hjá Símanum. Hún er með masternám í vefstjórnun og hefur starfað að vefmálum í um tíu ár og finnst vefgeirinn einhver skemmtilegasti starfsvettvangur sem til er.

Sigurður Árni Svanbergsson
Hann byrjaði vefferil sinn árið 2003 og tók þátt í að undirbúa vefverðlaunin á meðan þau voru haldin á vegum Vefsýnar frá árunum 2000 til 2005.
Sigurður tók einnig þátt í að koma SVEF á laggirnar árið 2005.
Í dag vinnur hann við HTML og CSS hjá vefdeild Landsbankanns og ýmis verkefni sem tengjast uppsetningu vefsvæða þar.

Viðar Svansson
Viðar er með mastergráðu í tölvunarfræði og hefur brennandi áhuga á vefmálum. Áhuginn er reyndar svo mikill að konan hans þurfti að sætta sig við að fá heimasmíðað webapp í jólagjöf. Hann starfar hjá TM Software og forritar þar mobile- og veflausnir fyrir nokkra af stærri vefum landsins. Í dag er Viðar að hanna og forrita Tempo verkefnakerfi og er á leið með það í útrásarvíking 2.0.

Tinna Karen Gunnarsdóttir
Tinna er hugbúnaðarsérfræðingur hjá Meniga þar sem hún er ábyrg fyrir framendaþróun og grafísku útliti á Meniga vefnum. Hún hefur starfað við  fjölbreytt verkefni á sviði vefforritunar í yfir 10 ár og er með BS gráðu í  tölvunarfræði frá University of North Carolina auk þess sem hún stundaði fjarnám í „Media arts and animation" frá Art Institute of California í San Francisco.

Brian Suda
Brian hefur unnið að vefmálum síðan hann fyrst kynntist vefnum um miðjan tíunda áratuginn. Hann les í gegnum hundruðir síða á hverjum degi, leitandi að tengingum milli áhugaverðra efnisatriða sem ná yfir margar mismunandi fræðigreinar. Nýlega eftir að klára að skrifa bókina "Designing with Data" byrjaði hann að gera tilraunir með sjálfvirka listsköpun þar sem hann notar veftækni til að taka inn "upplýsinga-fræ" af netinu.

Kveðja frá dómnefnd

Kæru Svef-félagar og aðrir gestir,

 

Það var sannur heiður að vera treyst fyrir þessu erfiða verki, sem er að velja úr öllum þeim mörgu frábæru vefsíðum sem tilnefndar voru til vefverðlaunanna í ár. Slíkt val er aldrei óumdeilt og verður ávallt upp að ákveðnu marki huglægt, þó að dómnefndarmenn reyni sitt besta til að vera hlutlægir í vali sínu. Ef fyllstu sanngirni ætti að gæta þá værum við að verðlauna svona 5-6 vefi til viðbótar. Því í mörgum tilfellum stóðum við frammi fyrir tveimur mjög jöfnum kostum.

Við öll sem sátum í dómnefnd Íslensku vefverðlaunanna í ár erum sammála um að sýn okkar á þessi verðlaun er allt önnur eftir þessa reynslu, heldur en hún var þegar við stóðum að tilnefningum okkar eigin vefsíðuverkefna og biðum eftir úrslitum vefverðlaunanna. Það kom okkur á óvart hversu stuttur tími er til að fara í gegnum mikið magn tilnefninga, en við reyndum að vinna verkið skipulega og nýta okkur stigagjöfina sem var með Eurovision-fyrirkomulagi til að einfalda valið og skilja á milli þess sem okkur þótti framúrskarandi, en ekki bara gott. Þetta ferli var upplýsandi og áhugavert. Ekki síst í ljósi þess að Ísland er lítið land og dómnefndarmenn eru líklegir til að hafa sjálfir komið að einhverjum tilnefninganna eða vera vanhæfir á annan hátt. Sem betur fer er tekið á þessu í hinum fínu leiðbeiningum sem við fengum frá stjórn SVEF og þetta er að okkar mati gott kerfi sem unnið er eftir. Þau okkar sem hafa efast á árum áður og talið að vensl og tengsl kæmu nærri ákvörðunum dómnefndar sjá þessi vinnubrögð í öðru ljósi nú. Það er frekar smekkur og áhugasvið sem litar val dómnefndar heldur en hlutdrægni því stigagjöf tekur mið af vanhæfi í hverju tilviki fyrir sig.

Dómnefndin samanstóð af fjölbreyttum hópi fólks, enda krefst það mjög fjölbreyttrar þekkingar að halda úti góðum vef og alls ekki hægt að ætlast til að ein og sama manneskjan sé t.d. jafngóður vefforritari, ritstjóri eða hafi góða markaðstilfinningu. Oft var augljóst hvert fagsvið viðkomandi dómara var, útfrá því hvernig stigin voru gefin og röksemdafærslan á bakvið þau var. Greinilegt var hverjum fannst t.d. hönnun vefs vera mikilvægust eða markaðssetning o.s.frv. En samsetning dómnefndarinnar tryggði, að ég tel, góða umræðu um öll mál og sanngjarna og dreifða stigagjöf.

Tilnefningarnar voru að sjálfsögðu misjafnar að gæðum, en það verður að segjast að það var mikið magn frábærra vefa tilnefndir í ár sem gerði dómefndinni nokkuð erfitt fyrir. Við kynntumst fullt af flottum íslenskum vefum, sem við höfðum í sumum tilfellum ekki heyrt um áður. Margir gerðu tilkall til verðlauna, en á endanum varð dómnefnd að velja aðeins örfáa sem stóðu upp úr í sínum flokki. Við óskum væntanlegum vinningshöfunum innilega til hamingju og segjum við alla hina: haldið áfram að halda úti frábærum vefsvæðum. Við erum stolt af vinnu ykkar og fagmennsku. Og okkur er heiður af því að vinna með ykkur innan þessa geira.

Fyrir hönd dómnefndarinnar segi ég takk. Takk fyrir okkur!

 

SVEF á FacebookÁhugaverð umræða í Facebook hópnum


SVEF á Twitter Greinar og annað góðgæti á Twitter


SVEF á Vimeo Upptökur frá bjórkvöldum og Iceweb