Íslensku vefverðlaunin 2008 - úrslit

30.01.2009 23:39

Fyrr í kvöld voru Íslensku vefverðlaunin 2008 veitt í Listasafni Reykjavíkur að lokinni vel heppnaðri vefráðstefnu SVEF. Hátt á annaðhundrað vefir voru tilnefndir til þátttöku og veitt voru verðlaun og viðurkenningar í alls átta flokkum.

Úrslitin urðu þau að Siminn.is var valinn besti íslenski vefurinn 2008 ásamt því að fá verðlaun fyrir besta útlit og viðmót. Aðrir vefir til að vinna verðlaun voru: Icelandair.is fyrir að vera besti sölu- og þjónustuvefurinn; Póstur.is var valinn besti fyrirtækjavefurinn; kvikmyndir.is fékk verðlaun sem besti afþreyingarvefurinn; akranes.is var valinn besti vefurinn í almannaþjónustu; 24x24.is var valinn besti einstaklingsvefurinn og að lokum var isafoldtravel.is valinn besti vefurinn í flokknum bjartasta vonin.

SVEF vill koma á framfæri þökkum til allra þeirra fyrirtækja og einstaklinga sem sendu inn tilnefningar vegna vefverðlaunanna 2008. Dómnefndin átti úr vöndu að velja þar sem mjög mótt var á munum í sumum flokkum. Stjórn SVEF kann dómnefndinni bestu þakkir fyrir vönduð og vel unnin störf.

Verðlaunavefir

Besti sölu- og þjónustuvefurinn

Icelandair.is

Umsögn dómnefndar:

Fyrir stór fyrirtæki getur verið snúið að gera öllum þjónustu- og vöruflokkum jafn hátt undir höfði. Þetta hefur þó tekist gríðarlega vel á Icelandair.is. Vefurinn er mjög hnitmiðaður og gott skipulag leiðir notandann auðveldlega að því sem er að leitað. Glæsilegur mobile vefur fylgir þessari metnaðarfullu endurhönnun sem við teljum fyrirtækinu mjög til sóma.

Besti fyrirtækjavefurinn

www.postur.is

Pósturinn

Umsögn dómnefndar:

Vefur Póstsins nær að veita aðgengi að miklum upplýsingum á mjög einfaldan og þægilegan hátt ásamt því að vera með afburðagóðan sölu- og þjónustuhluta með góðu framboði af sjálfsafgreiðslu og ítarlegum upplýsingum um þjónustu sem fyrirtækið veitir. Vefurinn er einfaldur, skýr og leiðir notandann áfram með góðu skipulagi og framsetningu ásamt því að útlit hans sómar sér vel í samræmi við ímynd fyrirtækisins og styður vel við innihald hans.

Besti vefur í almannaþjónustu

www.akranes.is

Akranes.is

Umsögn dómnefndar:

Besti vefur í almannaþjónustu er vel hannaður, vel skipulagður og vel útfærður. Framsetning og skilgreining á efni til markhópa eru til fyrirmyndar. Áhersluatriði eru vel skilgreind og allar upplýsingar aðgengilegar og fagmannlega fram settar. Útlit og viðmót ásamt kortum og annari virkni eru vel útfærð. Á þessum metnaðarfulla vef fara tæknileg úrvinnsla, útlit og innihald frábærlega saman og skilar hann þannig þjónustuhlutverki sínu með sóma.

Besti afþreyingarvefurinn

www.kvikmyndir.is

Kvikmyndir.is

Umsögn dómnefndar:

Vefurinn er með mikið og gott magn af afþreyingu og upplýsingum sem eru settar vel fram. Hönnun er létt og góð. Gott samfélag hefur myndast á vefnum þar sem áhugafólk um kvikmyndir ræðir málin á góðum spjallsíðum. Það eru þessir áhugasömu notendur sem gefa vefnum mikið.

Besta útlit og viðmót

www.siminn.is

Síminn.is

Umsögn dómnefndar:

Vefurinn sem fær verðlaunin Besta útlit og viðmót 2008 er yfirgripsmikill, en um leið vel skipulagður vefur. Textauppbygging á vefnum er góð og samspil mynda og texta gott. Upplýsingar eru aðgengilegar og hönnun og framsetning á undirsíðum eru til fyrirmyndar. vefurinn er snyrtilegur og þjónar ímynd fyrirtækisins vel. Markaðsefni er vel notað og aðlagað við vefinn bæði á forsíðu og undirsíðum, sem og tæknilausnir eru nýttar á góðan og skilmerkiletgan máta. Meðal undirléna vefsins er einnig góður þjónustuvefur fyrir viðskiptavini og yfirgripsmikill mobile vefur.

Besti einstaklingsvefurinn

 

www.24x24.is

24x24.is

Umsögn dómnefndar:

Glæsilegt samfélag um gönguferðir og útivist á heima á vefnum Glerárdalshringurinn. Þar hefur hópur fólks komið saman og skiptist á fréttum og öðru efnið varðandi gönguleiðir, útbúnað og fleira varðandi svæðið sem fjallað er um. Greinilegur metnaður er í uppsetningu, efnismeðferð og stöðugri uppfærslu vefsins sem er orðinn mjög efnismikill. Útlit hans er gott og þjónar markmiðum hans vel. Textar og myndir eru vel framsettar og niðurstaðan er fjölbreytt flóra af upplýsingum. Þessi vefur sýnir hvernig einstaklingsframtak nýtur sín á Netinu.

Bjartasta vonin

 

www.isafoldtravel.is

Isafoldtravel.is

Umsögn dómnefndar:

Bjartasta vonin er gríðarlega metnaðarfullur vefur. Hönnunin er falleg, nytsöm og vel uppsett. Allt efni er vel skrifað. Í vefjum sem útnefndir eru til Íslensku vefverðlaunanna þykir þetta kannski ekki tíðindi. En dómnefnd þótti allt þetta sérstaklega virðingarvert vegna þess að fyrirtækið sem um ræðir er lítið og í iðnaði sem hefur ekki hingað til vakið athygli fyrir metnaðarfulla vefhönnun. Samt er þetta iðnaður sem stólar á alþjóðlega markaðssetningu. Sem markaðstól er vefurinn virkilega vel heppnaður. Honum tekst að höfða til síns markhóps af stakri snilld, gengur meira að segja svo langt að ráðleggja notendum frá því að hafa samband við fyrirtækið ef svo ber undir. Samanlagt verður úr vefur sem er traustvekjandi en það er grundvallaratriði fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Á vefnum má lesa um ferðir sem ferðaskrifstofan býður upp á, starfsfólk hennar og útbúnað sem mælt er með. Niðurstaðan var sú að dómnefndina langaði til að skella sér í ferð.

Besti íslenski vefurinn 2008

 

Síminn.is

Umsögn dómnefndar:

Þegar allir vefir voru skoðaðir skaraði einn fljótt framúr, að mati dómnefndar. Hvar sem komið var niður var erfitt að finna honum neitt til foráttu. Frágangur var hvívetna eins og best var á kosið. Vefurinn er í alla staði til fyrirmyndar og í reynd glæsilegt dæmi um það hvernig hægt er að koma gríðarlegu magni af upplýsingum vel til skila. 

Orðsending frá dómnefnd:
Varðandi stigagjöf þá er mikilvægt að taka fram að þeir dómarar sem á einhvern hátt tengdust þeim vefjum sem voru ofarlega í valinu eða voru skýrir samkeppnisaðilar, tóku hvorki þátt í umræðum um þá vefi né gáfu þeir þeim tiltekna vef stig eða höfðu áhrif á nokkurn hátt. Einkunnir voru ekki það eina sem við lögðum til grundvallar heldur einnig okkar reynsla og sérþekking. Ef vafatriði komu upp voru þau rædd. Mikilvægt er einnig að taka fram að ekki á nokkru stigi hafði stjórn SVEF á einhvern hátt áhrif á dómara eða val þeirra. Öll verðlaunasætin sem og tilnefningar voru ákveðin að vel ígrunduðu máli.

 

 

 

 

SVEF á FacebookÁhugaverð umræða í Facebook hópnum


SVEF á Twitter Greinar og annað góðgæti á Twitter


SVEF á Vimeo Upptökur frá bjórkvöldum og Iceweb